<$BlogRSDURL$>

lunes, mayo 31, 2004

Þetta er víst löng helgi. Mér finnst þetta þó ekkert líkt helgi þar sem ég er ekkert byrjuð að vinna. Þessi helgi var mjög skemmtileg. Loksins kom sigga heim. Það var þó ekkert svo langt síðan ég kvaddi hana á flugvellinum í Guatemala í desember. Hún hefur ekki mikið breyst, bara með pínu ljósara hár og brúnni.

Á föstudagskvöldið fór ég í afmælisveislu sem endaði þó á þann hátt að stór hluti gestanna fór í fótbolta niður við austurbæjarskóla. Ég var búin að gleyma því að ég hef ekki spilað fótbolta mjög lengi. Mitt lið skíttapaði. Halla kom að sækja mig þar sem hún og sigga höfðu farið í leiklistarpartý.

Á laugardagskveldið bauð mamma mér á tónleika í höllinni, ísland - írland, sem voru mjög skemmtilegir. Þeir hefðu þó verið mun skemmtilegri ef þeir hefðu verið í öðru húsnæði. Þetta var alltof stórt fyrir svona tónlist sem maður vill bara dansa við. Fólk sat bara sem mér fannst nú frekar fúllt. Damon Albarn söng auðvita bara eitt lag og sást ekki meira það kvöldið.

Eftir tónleikana fór ég í mitt fyrsta kórpartý í meira en ár. Efnilegustu eiginmennirnir voru kynntir, þar var Hákon píanósnillingur valinn sá efnilegasti. Einnig voru valdir oreblu strákurinn, keaskyr strákur, þeir þrír öftustu á eiginmannalistanum og colgate brosið.

Partýið var nú samt frábært, mikið sungið, skemmt sér og svo framvegis. Ég og marta vorum nú ekki á því að fara að sofa þegar við komum heim til hennar seint og síðar meir, heldur héldum áfram að rugla í fólki. Ég var búin að lofa sjálfri mér að verða ekki eins og vinkonur mínar, þar sem ég var frekar yfirveguð þegar ég kom heim frá dvöl í fjarlægðinni. Ég hef þó komist að því að ég er orðin alveg eins og þær.

Sunnudagurinn var mjög svo góður dagur, þar sem við sátum nokkrar í góðu standi í hitapollinum á svölunum hennar mörtu allan daginn. Við sátum frá tólf til sex á svölunum. Ætli maður fari ekki út að skokka.

|

jueves, mayo 27, 2004

Nú er allt komið á fullt í að safna pening fyrir kórferðina til Eistlands. Nokkrar ungar stúlkur eru búnar að standa sig eins og hetjur í að finna ýmsar leiðir til þess að fjármagna. Ýmislegt mjög sniðugt er í gangi, meðal annars að selja rækjur. Ég á í persónulegu stríði við rækjur svo ég ætla að skrifa hér nokkur vel valin orð um þessi fyrirbrigði.

Ég hata rækjur, ég hef aldrei borðað þær og mun aldrei borða þær, þær fá mig til að gubba, það er ekki pláss í frystinum fyrir þær, þær eru stórar, illa lyktandi, plássfrekar, bleikar, vondar, illaseljanlega, of margar, óþolandi, frosnar og ....

Ég er með sölugenin í mér svo ég er að reyna að peppa sjálfa mig upp í að fara að ganga í hús og selja. Ég var alveg að fara að gráta því ég fékk svo mörg nei frá fólki í gær. Védís taktu þig nú á og reyndu að selja þetta allt!!

Stelpur ég dáist af kraftinum í ykkur. Án ykkar myndum við þurfa að borga alltof mikið til þess að fara út. Það er bannað að taka hatri mínu á rækjur illa.

|

martes, mayo 25, 2004

Ef þú gleymir því að hafa hitt mig,
þá hefur engu tapað:
en ef þú kynnist
JESÚ KRISTI
og gleymir HONUM


þá hefur þú tapað öllu!

Já þetta er merkileg speki. Það var eldri maður sem kallaði á mig á laugarveginum í dag til þess að rétta mér lítinn miða þar sem á stóðu þessi skilaboð. Ég gæti nú ekki verið meira ósammála þessum skilaboðum. Það er allt í lagi að ég þekki engann svo lengi sem ég þekki Jesú Krist sem er (ef ég hef fylgst nógu vel með kristinfræðitímum í 7unda bekk) ekki enn á meðal okkar á jörðinni. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem trúa á Jesú Krist þar sem hann bar út ágætis boðskap en ætli ég sé ekki andstæða skilaboðanna, ég man eftir öllum nema Jesú Kristi. Kannski er ég ekki andstæðan, kannski er málið bara ég hef aldrei hitt hann persónulega.

|
Í gær vanmat ég íslenska sól. ég hélt að ég gæti ekki brunnið af íslenskri sól þar sem hún er ekki eins sterk og sól á miðbaugi. Allur dagurinn í gær fór í það að mála grindverk og ætlaði ég að vera sniðug og sólbaða mig í leiðinni. Það hafði þær afleyðingar að bakið á mér varð brunnið, réttara sagt mjög brunnið. En ég er með reynsluna af brunni húð, svo því var reddað og bakið er bara léttbleikt í dag.

Okkur systrum er vandi á höndum þar sem við höfum ekki hugmynd um hvenær foreldrar okkar koma heim. Þeir gætu komið heim á morgunn, þeir gætu líka komið á fimmtudaginn en svo er líka séns að þau komi á föstudaginn. Í rauninni höfum við bara ekki hugmynd um það svo við vonum að þau hringi og láti okkur vita. Ef það vitti svo til að einhver viti hvenær hópur frá Heimsferðum kemur heim frá göngu á ítalíu má hann/hún endilega láta mig vita.

Í dag er planið að leita af skrifstofunni þar sem ég get sótt um bílpróf. Ástæðan fyrir því að ég er ekki enn komin með bílpróf er mín leti. En nú er ég loks búin með þetta bóklega og get farið að taka bóklega prófið. Ég er nú ekki alveg að nenna að standa í þessu. Mér finnst svo ágætt að láta skutla mér um allt án þess að hugsa en ég er ekki alveg viss um að það fólk sé á sama máli og ég.


|

lunes, mayo 24, 2004

Sumarið er þá komið með það sem ég á svo erfitt að venjast, endalausri birtu. Maður fær sig ekki til þess að fara að sofa sérstaklega ekki þegar við systurnar erum einar heima og ekki byrjaðar að vinna.

Þó eru teknar við endalaust margar kóræfingar, en við verðum á kóræfingu næstum annan hvern dag fram til 25 júní. Eitt verkið er alveg ótrúlegt, textinn er bara ættartala jesú sem er bara which was the son of .... which was the son of ..... which was the son of ..... which was the son of ..... og svo framvegis við þurfum að segja "which was the son of ......" 74 sinnum með 74 ólíkum nöfnum..

Við tekur að selja rækjur og kaffi og stjúpur og þar sem ég er versta sölumanneskja í heimi má fólk endilega láta mig vita ef það vill kaupa eitthvað af fyrrgreindum vörum.

Í dag fór ég í ökuskólann sem er alls ekki eins ömurlega leiðinlegt eins og maður var búinn að fá lýsingar af. Greyið fólkið sem er með þessa tíma reynir að vera fyndið allan tíma svo að fólk nenni að hlusta á það. Stundum á það til að takast. Í dag þekkti ég engann sem var með mér í tíma svo ég tók það að mér ásamt nokkrum öðrum nemendum að vera pirrandi og spyrja óhóflega mikið um t.d. hver munurinn væri á því að skransa og skrensa.

annars var afmæli hér á bæ á föstudaginn og svo einhvur partý í gærkveldi og svoleiðis. við systur gistum í nóatúninu hennar melkorku. Ekki nema gott að eiga svona íverustað í bænum, þó að það sé nú líka ágætt að búa í sveitinni.



|

jueves, mayo 20, 2004

Ég fékk svo loks vinnu þó að það var í rauninni halla sem átti að fá vinnuna. Þar sem hún var komin með svo góða vinnu fékk ég bara þessa í staðinn. Ég verð að vinna á leikjarnámskeiði fyrir krakka úr öskjuhlíðaskóla. ég veit að það getur orðið erfitt en það verður svo þess virði og ég held að ég muni hafa mjög gott af því að vinna þar. Vinnutíminn er mjög góður, frá 9 til 4 alla virka daga og ég byrja 7 júní og er búin 13 ágúst. Ég fæ meira að segja frí til þess að fara til Eistlands.

Loksins er komið sumar en því fylgja kostir og gallar. Veðrið er alltaf kostur við sumarið og það er einhvernveginn alltaf léttara yfir öllum. Fríið er ekki amalegt heldur og það verður freistandi að skreppa í útileigu. Annars verður skrýtið að geta ekki séð alla alla daga í skólanum. Kannski er það bara ágætt. Maður þarf nú líka alltaf á MH fríi að halda þó að sumum finnist það kannski skrýtið. Skýring mín er mjög einföld og ég ræði hana frekar síðar.

Prófin voru ágæt og mér gekk í raun betur en ég bjóst við. Það eina sem ekki gekk eins og ég vildi var stærðfræði en það var eina greinin sem ég fékk ekki þá einkunn sem ég stefndi að. Þó að ég fékk ekki eins trylltar einkunnir og sumar vinkonur mínar fékk ég tvær áttur, fimm níur og þrjár tíur sem ég er mjög sátt með.

Nú kemur sigga eftir rúmlega viku, ég byrja að vinna eftir tvær og hálfa viku, fer til eistlands eftir fimm vikur, kem heim frá eistlandi eftir sex og hálfa viku, verð búin að vinna eftir tólf vikur og halla fer eftir þrettán vikur. Vá hvað verður skrýtið fyrir mig. Hún mun taka við mínu hlutverki og verður týndi tvíburinn.


|

jueves, mayo 13, 2004

Það er kisa sem býr í garðinum okkar. Eða kannski ekki kisa því að kisur eru sætar. Það er köttur sem býr í garðinum okkar. Hann er ógeðslega feitur, ljótur, skítugur, blindur, ófrýnilegur, hægfara, þrjóskur, leiðinlegur, gamall, hvítur, svartur, hárlaus, fitugur, ómyndarlegur, andfúll, ógeðfelldur, hrollvekjandi og svo mætti lengi telja. Mér finnst bara ekkert ofsalega skemmtilegt að hann hangi alltaf í garðinum okkar og fyrir utan dyrnar hjá okkur og sama hvað maður reynir að fá hann oft til þess að yfirgefa garðinn, gerir hann það aldrei.

Það mætti segja að það hafi verið sorglegt að ég fékk fleiri símtöl frá útlöndum en frá Íslandi á afmælisdaginn þó að kveðjurnar hafi ekki verið fáar formi persónulegra kveðja í skólanum, sms-skilaboða, kommenta og margt fleira. Athyglisvert var að nokkrar af nánustu vinkonum mínum höfðu ekki hugmynd um að ég ætti afmæli en svo voru aðrir sem komu mér á óvart með þekkingu sinni. Það er alltaf gaman að fá afmæliskveðju og þakka ég fyrir allar þær kveðjur.

Afmælisdagurinn var nú bara ágætur þó að ég dvaldist bara á heimili mínum í Selásnum að reyna að fá sjálfa mig til þess að læra undir dönskupróf, sem gekk ekkert rosavel.

Við uppvaskið í gær (þar sem afmælisbarnið var skilið eftir eitt heima með uppvaskinu um kvöldið) var stillt á rás eitt (það sem foreldrar mínir hlusta gjarnan á) og var í gangi söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Ég get ekki sagt annað að maður heyrir ekki oft jafnmörg grípandi sönglög spiluð í einni röð. Mér finnst þessi keppni ekki vera að sýna neitt sem hægt er að stæra sig af og fá mörg lögin mann til þess að hugsa að meira að segja maður sjálfur hefði nú getað samið örlítið betra lag en þetta. Þá er nú nokkuð sagt.

Annars tekur við efnafræðilærdómur í dag en það er allt í lagi þar sem það er bara ágætlega skemmtilegt. Ég á þó ekki bókina þar sem ég týmdi ekki að kaupa bók sem Halla á, þó að það vandamál skapist að hún sé að nota hana til þess að læra.

|

miércoles, mayo 12, 2004

ammæliammæli

afmælisdagurinn minn 2004 frá klukkan 5 - 15
síminn hringdi klukkan fimm. Vá hvað ég var ekkert að fatta að það væri einhver að hringja þó að ég hafði þó rænu á að svara. Þá heyrði ég bara svona: hola, sabe quien habla Heyrru þá var þetta bara tvítugur frændi minn frá Costa Rica sem mundi að ég ætti afmæli sirkabát í dag.. Það kom mér svo mikið að óvart en ég náði þó að segja eitthvað við hann þó að ég væri hálfsofandi.

Þetta þýddi auðvita að það var ekkert rosalega auðvelt að sofna aftur, þar sem ég var svo uppveðruð. Ég hjóp yfir til Höllu og ætlaði að geta sofið þar, en það er svo ekki mögulegt þar sem það er ekkert pláss í rúminu hennar fyrir drasli. Hún sefur einhversstaðar þarna á milli fatnanna.

Ég náði nú samt að sofna og vaknaði við lykt af pönnsum.. nammi nammi.. maður kvartar ekki yfir pönnukökum í afmælismorgunnmat..

Í skólanum fór ég svo í tvö próf, nát113 og spæ403 sem mér gekk nú ekkert nógu vel í. En það verður að duga. Ég fékk heljarinnar býsn af afmæliskveðjum sem var mjög skemmtilegt.

Nú er ég að fara læra undir dönskupróf og borða afmælisköku.

|

viernes, mayo 07, 2004

Ég sit uppi við eldhúsborðið og er að læra. Ég heyrði svona óm af bassa og var farin að trúa því að hann skúli gaur væri nú farinn að spila í bílskúrnum hérna við hliðina á mér. Skúli gaur á nefnilega heima svona ská við hliðina á okkur og það var frekar algengt að maður heyrði hann æfa sig hérna áður fyrr. En í dag fannst mér það alveg frekar merkilegt að hann væri farinn að spila og svo heyrðist mér að það væru trommur og já jafnvel gítar með. Heyrðu var þá bara öll hljómsveitin komin í sveitina akkurat í miðjum prófum. Mér fannst það alveg frekar merkilegt. Ég ákvað því að opna gluggann og vá hvað ég þakkaði fyrir að hljóðin komu ekki úr bílskúr skúla þar sem það hefði verið með eindæmum sorglegt af að hljómsveitin Gaur var að að spila það sem ég heyrði nú betur.
En nú ætla ég að setja smá tölvubann á sjálfa mig svo ég ætla ekki að blogga fyrr en prófin eru búin. Hmmm það eru þó nokkrar líkur á því að ég geri undantekningu á því á afmælisdaginn minn og svoleiðis.

|
Sú tilfinning sem ég hata mest af öllu er svona samviskubits"hefði átt að gera þetta/ hefði ekki átt að gera þetta" tilfinning. Í prófunum þegar ég er ekki að gera neitt fyllist ég af henni og lætur mér líður illa útaf einhverju sem skiptir ekki miklu máli eða eitthvað sem er ekkert hægt að gera í núna. En þegar maður er svona einn að læra, magnast hún upp og verður óþolandi. Eins og eitt dæmi: stelpa sem er á msninu mínu sem er frá Costa Rica. Hún og systir hennar buðu mér í heimsókn til sín yfir helgi og það var alveg frekar fínt. Ég var samt ekki alveg að fýla þær og ég hringdi aldrei í þær aftur af því að mér fannst það óþægilegt. Núna er þessi stelpa alltaf á msninu mínu online og ég blockaði hana því að ég er með svo mikið samviskubit að ég hringdi aldrei í hana aftur. Ég er með hausinn svo fullan af svona dæmum ("hefði átt að gera/hefði ekki átt að gera" sem eru þó aðallega frá því að ég var úti), að ég er komin með hnút í magann.

|

miércoles, mayo 05, 2004

Dagurinn í dag einkenndist af lærdómi.. Voðalega er erfitt að skipuleggja sig þegar það er svona langt í þessi próf. Ég veit ekki um neinn sem er með jafn ömurlega próftöflu og ég. mánudagur, mánudagur, 2 sinnum miðvikudagur, fimmtudagur og föstudagur.. ojj.

Í dag var ég akkurat spurð þessarrar spurningar um hvað ég ætla að gera á eftir menntaskóla. Ég gat ekki svarað henni frekar en venjulega en maðurinn (sem reyndist vera smiður þar sem ég er að skúra) sagði að hann hafði séð það um leið og ég gekk inn að ég væri týpan til þess að vera fjallleiðsögumaður. Mér fannst það frekar fyndið.

Ég græt ennþá vegna atvinnuleysis. Í dag fékk ég bréf frá Árbæjarsafni sem tilkynnti mér það að ég fengi ekki vinnu þar en þangað til núna var ég ásamt fjórum öðrum á biðlista. Þar með sé ég fram á það að ég geti ekki keypt mér nokkurn skapaðan hlut næsta vetur, né í sumar og alls ekki farið að heimsækja hana Höllu mína til Perú.

Já og ég ákvað að laga linkana mína og ákvað að vera leiðinleg. Mér hefur alltaf þótt frekar leiðinlegt þegar fólk er kallað svona upphafsstaf af seinna nafni svo ég ákvað að setja alla svoleiðis.

|

martes, mayo 04, 2004

Ég gæti ekki talið það þó að ég vildi, hversu oft ég hef farið í strætó. Maður sér alltaf eitthvað áhugavert í strætó svo ég ákvað svona til tilbreytingar að punkta niður það sem ég sá á ferð minni með strætó frá miklubraut við MH og til heimili míns í Selás.

leið 115
Strætóbílstjórinn - einn besti strætóbílstjórinn og ég veit að hann heitir Bjössi. Ég man eiginlega ekki af hverju ég veit hvað hann heitir og ég held að hann sé eini strætóbílstjórinn sem ég veit hvað heitir. Hann gaf manni alltaf skiptimiða sem giltu lengi svo að maður þyrfti ekki að borga aftur í strætó.

Strákur - sem ég hef aldrei séð áður í þessum strætó. skrýtið. bara nokkuð sætur strákur og gæti vel verið MR-ingur, já ég veðja á það. Hann fór út við FÍH og hljóp upp brekkuna.

Ártún - skiptistöð strætó þar sem ég þarf að bíða eftir 10nni. Það er fullt af fólki, fólkinu sem einkennir strætóa, Öryrkjar, gamalt fólk, útlendingar og unglingar. Einn gaurinn situr og er að hlusta á aðeins of háværatónlist og maðurinn fyrir framan hann er að blístra eitthvað sem passar ekkert við bassann á háværu tónlistinni. Allir hinir og þar á meðal ég, hlustum á.

Annar strákur - hann fór úr tíunni sem ég var að fara upp í. Skrýtið með þennan strák að ég hef svo alltof oft séð hann. Hann kom alltaf í ísbúðina þegar ég var að vinna þar og svo lenti ég í því að fara í einhverja sjoppu þar sem hann var að vinna. Ég veit að hann var í versló þar sem hann gekk oft um í VERSLÓ peysu. Veit annars ekkert um hann nema að ég sé hann stöku sinnum.

Kona - að bíða í strætóskýli. Af hverju var hún með skærgula einhverskonar latex hanska að lesa bók á stoppustöð. Nokkuð merkilegt og lengi hægt að velta því fyrir sér.

Fáninn - í hálfs stöng við elliheimilið í árbæ. Ætli það sé ekki frekar erfitt að búa á elliheimili þar sem það þykir bara nokkuð eðlilegt að nágranni manns deyi úr hjartaáfalli?

Mjög feitlagin kona - að fara út úr strætó og á frekar erfitt með það. Voðalega hlýtur það að vera erfitt að glíma við offituvandamál. Það er svo erfitt í alla staði, almenningsstaði með of lítil sæti, strætó með of lítil sæti og svo framvegis.

Hraðahindranir - vissuð þið að á leið minni úr og í skólann þarf ég að fara yfir 40 hraðahindranir. Ég taldi það einu sinni hvað það voru margar hraðahindranir frá Ártúni og heim og þær eru ekki nema 20 og eitthvað. Svo fram og til baka þarf ég að fara um 40 sinnum yfir hraðahindranirnar.

Tveir strákar - sem eru að verða of flottir til þess að fara með strætó, en það eru bara nokkrir dagar í bílpróf. Þessir strákar eru að reyna að passa sig í því að vera nógu flottir, þó að þeir séu í strætó.

Lokaði Bónus - að ýminda sér að bónus sé búið að loka og það er ekkert í húsinu þar sem hann var nema sólbaðsstofa. Enda græða þeir örgglega meira en bónus gerði. Ef mig langar til þess að fara í sjoppu er styðst að fara í litlu kaffistofuna í aðra áttina og í hina áttina þarf ég að labba í 25 mín.

Gamli skólinn minn Selásskóli þar sem grænfáninn hennar mömmu blaktir. Nenni ekki alveg að útskýra það.

Og þá er ég komin á endastoppustöðina. Þaðan þarf ég bara að labba upp eina brekku og þá er ég komin heim.

|

lunes, mayo 03, 2004

Fólk er alltaf að spyrja hvað ég ætla að læra. Ég hef ekki hugmynd um það. Ég ætla þó að skrifa nokkur hugsanleg plön.
Mig langar reyndar að gera þau öll svo ég þarf nauðsynlega að fá úrið hans Bernhards lánað. Plönin eru ekki númeruð eftir geðþóttastuðli. Eitt eiga plönin öll sameiginlegt og er það að þau gerast erlendis. Ég komst að þeirri niðurstöðu að Ísland er ekki nógu stórt fyrir mig og ekki með nógu mikið af fólki sama hvað aðrir segja að það sé svo fínt. Ég neita því ekki að fámennt land hefur einnig marga kosti.

Plan nr.1
Klára MH á þremur árum, vorið 2006. Fara í spænsku og mannfræði í háskólanum og fara svo til Spánar í framhaldsnám af einhverju sniðugu. Þetta plan er reyndar mjög stutt komið og ekki nógu krefjandi.

Plan nr.
Klára MH á þremur og hálfu ári, haust 2006. Vinna einhversstaðar sem borgar vel og vinna eins og brjálæðingur. Fara til Japan og dvelja þar í 6 mánuði til ár að læra japönsku og eitthvað annað sniðugt, jafnvel vinna eitthvað. Taka mér ár eða þann tíma sem hentaði til þess að fara landleiðina frá Japan til Danmörku (já og ég veit að Japan er eyja). Stoppa við í Danmörku og sækja um í háskóla. Fljúga heim og vinna meira. Læra eitthvað hentugt, þjóðfélagsfræði, mannfræði?

Plan nr. 3
Klára MH á þremur og hálfu ári, vinna og fara í háskóla sameinuðuþjóðanna einhversstaðar útí heimi, helst í Suður Ameríku. Ég veit að ég verð að fara í eitt gott suður- ameríku flakk á ævinni. Áður en ég færi heim myndi ég (ef það væri raunhæft peningalega) fara að ferðast í suður- Ameríku. Ég myndi svo flakka um heim allan og helst vinna fyrir sameinuðu þjóðirnar (mjög raunhæft, aha)

Plan nr.4
Klára skólann á þremur og hálfu ári, vinna og fara til Tælands að læra köfun. Ég myndi svo búa í Tælandi og taka á móti túristum sem ég myndi kenna að kafa. Væri bara þar í góðu yfirlæti með góðum mat og flottum fiskum og kafaði. Þess á milli gæti ég flakkað um heiminn og kafað á ólíkum stöðum. Farið að heimsækja alla skiptinemana og fara að kafa í Ástralíu og svoleiðis.

Plan nr.5
Klára skólann á þremur árum og sækja um í læknisfræði einhversstaðar sem skóli myndi vilja fá mig. Ég myndi svo stinga af og fá mér vinnu einhversstaðar í Afríku sem læknir. Myndi bara týnast einhversstaðar út í heimi og sinna fólki sem þarf á því að halda. (Þetta var alltaf planið hennar Höllu, en ég er ekki alveg viss um hvernig það er hjá henni núna svo ég ætla ekki alveg að stela því strax)

Plan nr.6
Læra eitthvað sem myndi nýtast mér til þess að vinna í SOS þorpum. Hvað þarf maður að læra? Eitthvað í sambandi við eitthvað. Æi ég veit það ekki alveg, þarf að kynna mér það betur. En allaveganna flakka á milli sos-þorpa í heiminum og hjálpa til. Já og einhversstaðar í öllum þessum plönum ætla ég að læra fleiri tungumál.

Plan nr.7
Klára MH á einhverjum tíma sem hentaði og reyna að fá vinnu hjá einhverri ferðaskrifstofu. Væri þá leiðsögumaður á einhverjum mjög góðum stað. Helst væri ég til í að sjá um ferðir til s-ameríku eða til tælands. Fengi þá að flakka um með fólki og læra um þjóðir og sögu. Mjög skemmtilegt.

En annars eru þetta mjög ómótaðar hugmyndir ennþá og ekkert rosalega langt planaðar. Endast varla lengur en til 30 ég er 30 ára í mesta lagi. Ætli ég þurfi ekki bara að vera ein og barnlaus allt mitt líf svo ég komist í gegnum allt það sem mig langar til þess að gera. Kannski voru þessar hugmyndir yfirþyrmandi en ég á alltaf einn möguleikann eftir.

Plan nr. 8
Vera á Íslandi og vera eins venjulegur og allir hinir. Fara í HR og læra viðskiptafræði og kynnast þar manninum sem er lögfræðingur. Vera gift, eiga tvö börn, keyra um á golf, eiga mann sem keyrir um á jeppa. Ég vinn á verðbréfastofu en maðurinn á lögfræðistofu. Maðurinn fer til útlanda í viðskiptaferðir og tekur giftingahringinn af sér áður en hann fer á djammið. Kemur heim með fullt af fallegum gjöfum fyrir mig og börnin. Förum annað hvert ár til sólarlanda með fjölskyldunni þar sem legið er á ströndinni með öllum hinum. Verð gömul og sett á elliheimili þar sem eru bara útlendingar sem skilja ekkert hvað ég segi og uppgvötvi að ég hef ekkert að segja.


En annars

Í dag fór ég í íslenskupróf og gekk ekkert alltof vel. Af hverju á maður ekki jafn auðvelt með að læra og þegar maður var í 10unda bekk? Er ég orðin heimskari eða eru allir í kringum mig orðnir klárari? En nú er það bara að læra fyrir stærðfræðiprófið á mánudaginn og hin fjögur prófin sem eru í næstu viku.

Ég er enn án vinnu svo ég auglýsi hér með eftir vinnu.

|

sábado, mayo 01, 2004

Ég get fullvissað ykkur um það að það verður hlegið af mér á mánudaginn. Ég er með óhóflega bólgna kjálka. En það verður bara skemmtilegra íslenskupróf fyrir vikið. Ég óska öllum góðs gengis í prófunum og set link á veslinginn Bigga í Costa Rica.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com