<$BlogRSDURL$>

viernes, abril 30, 2004

próf próf próf.. en ég er bara einhvernveginn ekkert búin að fatta það að ég sé að fara í próf.. hmm er ekki alveg að koma mér af stað í lærdóminn. Vill frekar bara liggja uppí sófa og glápa á sjónvarpið til tilbreytingar.

Ég finn kjálkann á mér stækka og þakka fyrir að ég verð læst innan dyra næstu dagana. Það var búið að hræða mig svo mikið um endajaxlatökuna að ég greip með mér stærstu hedfónin sem ég fann heima og einn góðann disk til tannlæknis. Ég lokaði því augunum, opnaði munninn og hlustaði á tónlist á meðan tannlæknirinn var á bólakafi að skera mig upp og bora í sundur jaxla og kippa þeim út. Ég gat ekki sagt tannlækninum mínum annað en að hann hafi sannfært mig um að gerast ekki tannlæknir. Hann er þó ágætismaður og tel ég mig heppna með þá gerð af lækni.

Fyrrgreind aðgerð þýðir þó bólgnar kinnar og fljótandi fæði næstu dagana.

Ég sá mortar áðan og það var ágætt. Mannlegu helvítin sigruðu.

ohh.. ég bara er ekki í skapi til þess að læra.


|

miércoles, abril 28, 2004

Sumarið er bara komið, ótrúlegt. ég vona bara að það komi rigning á mánudaginn svo maður sættir sig við það að vera innandyra að læra undir próf.

Ég fór að velta því fyrir mér hvort ég hafi ekki hlaupið miklu oftar í strætó heldur en labbað. Ég er alltaf sein.

|

martes, abril 27, 2004

ég bara trúi því ekki að skólinn sé að verða búinn. Mér fannst ég vera að byrja. Það er auðvita gott að komast í sumarfrí en það er alltaf skemmtilegt að geta bara farið í skólann og hitt næstum alla þá sem þig langar til þess að hitta. Og pælið í því. Á föstudaginn er síðasti skóladagurinn hennar Höllu í heilt ár. Það er sko skrýtið. Mér finnst ég búin að vera svo stutt með henni í skólanum.

ég var í viðtali áðan fyrir tímarit AFS "nafnleysu". Það var svoleiðis að ég og annar strákur sem var í Brasilíu vorum látin spjalla um dvölin og konan tók það upp og punktaði eitthvað niður. Það var mjög skemmtilegt þar sem ég talaði og talaði. Þegar ég byrja að tala um Costa Rica, get ég ekki hætt. Svo það er betra að þið byrjið ekkert að spyrja mig um dvölina ;) Ég hef samt verið að velta því fyrir mér, af hverju það var ekki erfiðara að koma heim. Var árið mitt svona leiðinlegra en hjá fólki sem verður bara þunglynt að koma heim. Ég bara veit það ekki. Ég skemmti mér alveg mjög vel þetta ár og ekkert síður en margir aðrir. Kannski var ég bara góð í því að kúpla á milli íslands og costa rica.

ég er alveg frekar mikið of löt þessa vikuna. Ég bara nenni ekki að læra sem er ekki alveg nógu sniðugt þar sem maður er nú að fara að byrja í prófum. ég er misvel sett í námsgreinunum og ég held nú að ég nái öllum greinunum ágætlega. Mér hefur gengið langsamlegast verst í dönsku 103 sem er alveg frekar leiðinlegt þar sem ég fékk 9,5 á dönsku samræmda prófinu. Mér líst bara ekkert á þetta núna. Í öðrum greinum gengur mér bara ágætlega og er ekki alveg jafn svartsýn og hann þessi

Ég er ánægð í dag þar sem hann pabbi er að elda. Það er langt síðan að við halla höfum ekki komið þar við sögu þegar við erum á annað borð heima.

|

lunes, abril 26, 2004

Góða veðrið heldur áfram og ég sem hélt að ég væri komin með svona afskaplega góða og vana húð. Ég bara get orðið svo þreytt á henni. Ég var alveg örugglega ekki lengur en klukkutíma út í sólinni og ég er strax orðin létt bleik (útitekin) í framan. Ég var búin að sannfæra mig um það að ef ég yrði í ár undir sól á miðbaugi þyrfti ég aldrei að ganga í gegnum það framar að verða bleik af sól á íslandi. En það er ekki raunin. Ég veit ekki um neinn sem verður eins rauður jafn auðveldlega, það þarf bara að segja nafnið mitt, stríða mér, nudda mig, klóra mér og ég verð alltof rauð.

Vinnuvesenið heldur áfram. Ég er bara ekkert að fá vinnu. Ég var viss um að vinnumiðlun gæti reddað mér vinnu en það lítur út fyrir það að það sé ekkert að ganga. Ég er því farin að leita á önnur mið þó að ég er frekar hugmyndasnauð. Ég er þó búin að ákveða að setja upp saumastofu, strax að loknum prófum og sauma og búa til eitthvað úr þeim ljótu flíkum sem ég á. Aldrei að vita að ég gæti komið með einhverjar sniðugar hugmyndir.

Annars er ég búin að vera voðalega mikið að pæla í trúum upp á síðkastið, kannski vegna þess að ég hef verið að læra undir félagsfræðipróf og var líka að lesa Söguna af Pí fyrir stuttu. Ég hef verið með fullt af pælingum upp á síðkastið en ég skrifa þær kannski seinna við tækifæri. Eitt var það þó sem ég las í gær sem Karl Marx sagði. Þið sem hafði verið í Félagsfræði 103 hafið örugglega lesið þetta. Það er: Fólk skapar guði en missir síðan sjónar á þeirri staðreynd og tekur að tilbiðja eða óttast einmitt þá guði sem það hefur skapað. Mér fannst þetta bara pínu áhugavert.

En voðalega nennir maður nú ekki að fara í próf. Maður vill helst bara sitja á Austurvelli í sólinni og gera ekki neitt. En ég held að ég hef nú þegar tekið alveg nógan tíma í að liggja í sól og gera ekki neitt svo ég verð nú bara að fara læra að vera dálítið dugleg, svona til tilbreytingar. Ég tók þá ákvörðun að reyna að klára MH á þremur árum, hvernig sem ég fer nú að því.


|

sábado, abril 24, 2004

í gær var svo ósköp ágætt veður.. Við ungu stúlkurnar skelltum okkur í sund. Ég man ennþá þegar maður var svona 13 ára og fór í sund með öllum vinkonunum. Það var alltaf sama fólkið í sundi. Eftir því sem tók að líða á kvöldið kom fleira fólk sem hægt var að reikna út að kæmi í sund til þess að sýna sig og skoða aðra. En við stúlurnar vorum nú ekkert mikið í þeim pælingum þar sem í árbæjarlauginni er aðallega ein steriotípa yfirráðandi, þessi aðeins of ljósabrúni með strípurnar. Sundið var þó einstaklega hressandi og við komum hressar uppúr.

Við Halla og sigrún tókum þá ákvörðun að fara á dimmisionballið þar sem ég fékk að heyra frá henni systur minni að það væri sko langskemmtilegasta ball sem MH heldur. Partýið stóðst undir væntingum um að vera skemmtilegt (þó að ég láti það vera að fullyrða að það sé það skemmtilegasta sem um getur). Kvöldið var einnkar skemmtilegt og við halla palla tókum magnaða danssveiflu, svona í lokinn.

Við örkuðum um og flökkuðum um bæinn áður en ferðinni var heitið að Freyjugötu þar sem við systur fengum íverustað. Hvar væri maður en maður fengi ekki að gista svona við og við heima hjá vinkonum sínum?

Ég kom hress heim eftir hinn ágætasta svefn og fór í bílatíma klukkan 12. Ég held að ökukennarinn sé að verða frekar óþolinmóður þar sem mér er eignilega hætt að fara fram.

|

viernes, abril 23, 2004

Það er ekki hægt að efast um það að ég er einn hinn versti bloggari sem um getur. Ég ákvað að búa mér til nýtt blogg og taka mig á í því að skrifa ekki svona alltof mikið eins og ég gerði á síðasta bloggi. ég reddaði því svo þannig að ég bloggaði bara ekki neitt.. Sem er ekki alveg nógu gott. Ég hef því hér með ákveðið að ef ég næ ekki að blogga þrisvar sinnum eitthvað áhugavert næstu sjö daga, verður bloggdögum mínum lokið.

|

martes, abril 13, 2004

Þá held ég að ég sé komin með komment, vona það.

|

domingo, abril 11, 2004

Það er strax komið upp vanda mál að við séum orðin grænmetisætur. Bróðir minn er kominn í páskamatinn og er með ofnæmi fyrir hnetusteik. Það var nú meira klúðrið. Allar búðir eru lokaðar svo það var ekki hægt að skutlast út í búð að kaupa lambakjöt. Ég held þó að við getum reddað málunum en þar kemur tossaskapur minn við sögu. Frystirinn er nefnilega enn stútfullur af rækjum sem ég hef enn ekki selt svo að þeim verður bara skellt í einn gómsætan rækjurétt fyrir bróðurinn og málunum reddað.

|

sábado, abril 10, 2004

Þetta eru nú meiri páskarnir, maður gerir ekki mikið þó að félagsfræðiritgerð, spænskuritgerð, íslenskufyrirlestur bíða eftir því að ég hefji handa við gerð þeirra. Ég hef reyndar sökt mér í lestur sögunnuar um Pí þar sem Pí er nú staddur einhversstaðar á miðju Kyrrahafi í björgunarbát með Bengal tígrisdýrinu Richard Parker.
Annars hefur maður gert lítið en borðað mikið. Fjölskyldan mín tók þó þá ákvörðun síðastliðinn sunnudag að gerast grænmetisætur. Það kom til þegar ég nefndi það hvað mig hefur alltaf langað til að vera grænmetisæta, Halla sagði það sama og mamma sagðist alveg vera til í að prófa það. Vikan hefur því einkennst af grænmetisréttum og brauði sem hefur aðallega verið spelt. Hvað er að gerast fyrir fjölskyldu mína? Ég held þó mínu sælgætisáti og nenni nú ekki að skera það niður eins og hún Halla gerði fyrir nokkrum árum. Ég er mjög sátt við grænmetisátið og er ekki farin að sakna kjötsins ennþá.
Ég kíkti í dagbókina mína til þess að gá að hvað ég hefði verið að gera akkurat á föstudaginn langa fyrir ári og kom það þá í ljós að það var dagurinn sem ég kynntist Móniku sem varð besta vinkona mín úti. Merkilegt nokk.. Ég eyddi síðustu páskum að mestu leiti á ströndinni og svo í litla bænum mínum þar sem ég fylgdist með á leiknum atriðum sem sýndu dauða Krists með undirleik hinnar vestu lúðrasveitar sem um getur.

|
Ég skellti mér með nokkrum stúlkum upp í bústað á fimmtudaginn.. Ætlunin var að njóta lífsins með því að gera akkurat ekki neitt. Við tókum ekki neitt með nema ógrynni af mat og spilastokk. Við vorum þarna í sældinni og elduðum dýrindis mat sem við áttum ekki erfitt með að borða. Við borðuðum svo mikið að það var að verða frekar ósniðugt. Þetta var alveg frábært, hlustað á allar gerðir af tónlist og öll hugsanlega þekkt spil spiluð. Hápunktur ferðarinnar var þó tvímælalaust sólbað á veröndinni á föstudaginn. Það var ekki hægt að finna sér íslenskari upplifun, sumarbústaður í litlum birkiskógi með alltof mörgum sumarbústöðum allt í kringum þig, smá sól, fimm stelpur á veröndinni í sólbaði þar sem var þó svo kalt að þær voru vafðar í teppi og sængur svo að kuldinn næði ekki til þeirra. Sólin skein aðeins á andlitin sem var þó nóg til þess að maður fjölgaði aðeins freknunum í andlitinu á sér.

|

viernes, abril 09, 2004

Ég hef ákveðið að halda áfram að blogga. Það þýðir ekkert að hætta þó að ég komi heim. Það gengur þó ekki alveg að hafa URL - ið http://vedisicostarica.blogspot.com , best að vera ekkert að lifa í fortíðinni. Hér ætla ég að koma því á net það sem snýst í hausi mínum hverju sinni og vona að aðrir skemmti sér við lestur. Eitt sem ég er búin að læra af reynslunni er að það er ekki alveg nógu sniðugt að hafa bloggin svona löng eins og á fyrri síðu minni þar sem fáir sem engir gátu lesið sig í gegnum þau.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com